Auðveld aðferð

Ekki veit ég hvernig það er í dag en áður fyrr var það þannig að þegar maður fór til læknis þá borgaði maður gjaldið og skrifaði undir reikning í móttökunni áður en maður fór inn til læknisins. Og þessi reikningur var eðli málsins samkvæmt óútfylltur.

Ég gerði það eitt sinn að neita að skrifa undir. Sagðist af prinsipp ástæðum aldrei skrifa undir óútfylltan pappír. Það varð mikið uppistand og kerlingin í móttökunni varð stórmóðguð og sagðist aldrei hafa upplifað annað eins. Og meðan ég beið eftir að fara inn til læknisins kom inn kona og segir þá kerling: "þú þorir vonandi að skrifa hér undir" og gaut um leið til mín illu auga!

Og þegar ég er í miðju viðtali við lækninn þá heyrist garg úr kalltækinu frá blessaðri kerlingunni: "þú athugar að þessi er ekki búinn að skrifa undir"! Læknirinn var nógu skynsamur til þess að gera ekkert veður útaf þessu en fyllti í reikninginn að loknu viðtali og ég skrifaði undir.

En hver hefur ekki fallið fyrir minni freistingu en því að hafa í höndum undirskrifaða en óútfyllta ávísun á ríkiskassan?


mbl.is Lögregla rannsakar tvo lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið besta mál

Þetta þykja mér ágætar fréttir. Og enn betra er að hætt sé að krefjast þess að þeir sem fá íslenskan ríkisborgararétt taki upp íslenskt nafn. Þess var krafist nær alla síðustu öld þangað til menn komust að því, eða urðu hreinlega að beygja sig fyrir því eftir kæru að það var brot á þeim mannréttindasamþykktum sem við höfðum skrifað undir.

Hugsa sér að vera frá Vietnam og neyðast til að heita Þorbrandur Úlfljótsson eða eitthvað álíka.

Auk þess legg ég til að íslenskir fjölmiðlar láti af þeim leiða sið að uppnefna blásaklaust fólk einsog t.d. enska menn sem heita Edward. Er einhver skynsamleg ástæða fyrir því að aumingja mennirnir séu kallaðir "Játvarður" á síðum Morgunnblaðsins?


mbl.is Mismunandi nafnareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að breyta til?

Langar bara að koma að minni skoðun á því hvað hægt væri að gera til að bæta kjör verkafólks á Íslandi. Lesið færslu mína hér til hliðar undir: Eru Íslendingar duglegir?
mbl.is „Fólki heitt í hamsi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslendingar duglegir?

Ég hefði gjarnan viljað koma þessu inn hjá einhverju verkalýðsfélaginu, en eftir langa leit á síðum þeirra virðist sem að ekki sé gert ráð fyrir almennum umræðum þar.

Ég var að lesa niðurstöður úr könnun sem sýnir að vinnutími verkafólks á Íslandi er óheyrilega langur og virðist jafn vel vera að lengjast heldur en hitt. Ég varð svo hneykslaður að ég get ekki orða bundist. Ekki er hægt annað að segja en að þetta sé mikill áfellisdómur yfir verkalýðsfélögunum. Ég hef ekki búið á Íslandi síðustu fimmtán árin og mér datt ekki í hug annað en að búið væri að útrýma þessum skrælingjahátt fyrir löngu.

Á meðan hin Norðurlöndin og reyndar öll Vesturlönd hafa fyrir mörgum áratugum komið á 40 tíma vinnuviku eða minna í raun þá hjakka Íslendingar í sama farinu og ekki séð frammá að nein breyting verði þar á til batnaðar nema að síður sé.

Ég man eftir verkalýðsforkólfum sem komu á vinnustaðinn þar sem ég vann og sögðu þegar rætt var um lágt kaup: "Þið þurfið nú ekkert að kvarta hér, þið hafið svo mikla yfirvinnu".

Vandamálið er fyrst og fremst að dagvinnulaunin eru svo lág að það er engin leið að framfleyta sér á þeim.

Þetta vita atvinnurekendur og verkstjórar og að þeir fá ekki neitt starfsfólk nema að geta boðið uppá yfirvinnu. "Næg vinna í boði". Hvergi nema á Íslandi myndi mönnum detta í hug að lokka fólk með slíku. Og engin launþegi utan Íslands myndi heldur láta lokkast af slíkum gylliboðum.

Verkstjórar vita líka að ef þeir skipulegðu vinnuna það vel að verkefnin entust ekki nema 8 tíma á dag þá myndi besti mannskapurinn fljótlega láta fætur sínar hafa það og fara þangað sem "næg vinna er í boði".

Ég man eftir því að í byrjun níunda áratugarins eða lok þess áttunda þá var sett á yfirvinnubann í fiskvinnslunni vegna vinnudeilu, og stóð það í fleiri vikur. Eftir nokkrar vikur kom í ljós að fiskvinnslufólkið afkastaði jafn miklu á þessum átta tímum eins og það gerði áður með óheyrilegri yfirvinnu frammá kvöld og um helgar.

Þetta þótti sumum býsna athyglisvert en engum datt mér vitanlega í hug að draga einhvern lærdóm af þessari uppgötvun.

Síðan var yfirvinnubanninu aflétt og fólk tók upp yfirvinnugaufið aftur og undi glatt við sitt.

Þessi vítahringur hefur verið í gangi frá ómunatíð; starfsfólk dregur af sér í vinnunni af því að það er þreytt og hundleitt eftir allt yfirvinnugaufið og líka til þess að eitthver verkefni verði eftir til þess að hægt sé að réttlæta áframhaldandi yfirvinnu sem aftur gefur því möguleika að lifa af laununum sínu.

Við Íslendingar höldum að við séum allra manna duglegastir og vísum þá gjarnan í alþjóðlegan samanburð um lengd vinnutíma.

En sé litið á afköst per tíma þá erum við á botninum í samanburði við önnur Vesturlönd.

Það er ekki sjálfgefið að meta dugnað eingöngu eftir því hve marga klukkutíma manni tekst að hanga í vinnunni.

Ég get nefnt ótal dæmi frá því ég var launþegi á Íslandi um það hvernig vinnan gekk fyrir sig.

Það var mætt um kl. 8 og kortinu troðið í klukkuna oft tíu mínútum yfir. Síðan var farið að dunda sér, drekka kaffi, troða sér í gallann og kjafta. Þótti gott ef menn voru komnir að verki tuttugu mínútur yfir. Korter yfir níu var svo tími til að fara að hægja á sér fyrir morgunkaffið sem alltaf tók drjúgan hálftíma þó að það væri ekki nema tuttugu mínútur samkvæmt samningum.

Eitt sinn vann ég sem byggingaverkamaður. Byggingarstaðurinn var í Vesturbæ Reykjavíkur en fyrirtækið sem ég vann hjá var suður í Hafnarfirði.

Á morgnana steðjuðu því allir starfsmenn til Hafnarfjarðar og eftir hæfilegan aðlögunartíma var lagt af stað og komið á byggingarstaðinn um kl. 9 og var þá bara hálftími þangað til hægt var að fara í kaffið. Eftir kl. 17 hófst svo yfirvinnan. kl. hálf-sjö var byrjað að mjaka sér niður af hæðum til að komast í kvöldmatinn og uppúr átta var komið að verki aftur og uppúr níu var farið að tygja sig af stað heim í Hafnarfjörðinn. Vinnutíma lauk kl. 22.00

Fyrir þetta voru greiddir átta tímar í dagvinnu og fimm tímar í yfirvinnu en af þessum þrettán tímum var virkur tími ekki meiri en í hæsta lagi átta tímar. Auk þess þurfti vinnuveitandinn að kaupa handa okkur kvöldmat á veitingahúsi.

Svona var unnið vikum og mánuðum saman að viðbættum laugardeginum og þurfti maður ekki að skammast sín fyrir skort á yfirvinnutímum í samsætum, heldur reiknaðist sem fullgildur.

Ég hélt satt að segja að karlmennska á Íslandi væri hætt að mælast í fjölda yfirvinnustunda og farin að mælast í stærðinni á jeppadekkjunum en ýmislegt bendir til að svo sé ekki.

Þar kom þó að því að ég þreyttist á þessu lífi og flutti til Svíana sem við Íslendingar oft teljum vera heldur litla kalla í samanburði við okkur.

Ég hafði heyrt af því undri að þar gæti fólk lifað af dagvinnulaunum einum saman og væri hreint ekkert sólgið í yfirvinnu. Skrítið fólk.

En það var fleira sem var öðru vísi á þeim vinnustað sem ég kom til í Svíþjóð. Allir voru mættir að minnsta kosti korteri áður en vinnutíminn hófst. Og þegar klukkan var sjö voru allir komnir í vinnugallann og að sínum verkefnum og byrjuðu að vinna á mínútunni. Tuttugu mínútna kaffitími stóð aðeins yfir í tuttugu mínútur og hangs í síma og eilíft skrepp var óþekkt. Allt skrepp fyrir utan til læknis var dregið af launum.

Verkstjórar byrjuðu hálftíma á undan öðrum til þess að ekki stæði á verkefnum þegar hinir mættu.

(Ég sá reyndar í Spaugstofunni að Pólverjar væru að leggja Íslenska vinnumenningu í rúst).

Væri þetta ekki eitthvað sem launþegar og atvinnurekendur á Íslandi gætu sameinast um í stað þessa söngs um of langan vinnutíma og kröfur um átta tíma vinnudag sem sunginn hefur verið á 1 maí á hverju ári í meira en fimmtíu ár án þess að nokkur hugur virðist fylgja máli?

Dagvinnulaun sem hægt er að lifa af, vel skipulögð vinna frá hendi atvinnurekenda og alvöru vinnubrögð hjá launþegum?

Kostirnir ættu að vera augljósir öllum. Meiri frítími fyrir fjölskylduna og óþreytt og vakandi starfsfólk sem aftur eykur afköst og minnkar slysahættu. Svona mætti lengi telja.

Hver þénar á þessu fyrirkomulagi?

Enginn, hvorki launþegar né atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild.


« Fyrri síða

Um bloggið

Jón Bragi Sigurðsson

Höfundur

Jón Bragi Sigurðsson
Jón Bragi Sigurðsson
Er aðallega hér til þess að geta kommenterað á önnur blogg en þó er aldrei að vita nema ég skrifi hér eitthvað gáfulegt í framtíðinni ef andinn kemur yfir mig.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband