25.6.2009 | 22:43
Best geymt hjá andsk...
Ég get því miður ekki samglaðst Jóhönnu að öllu leiti. Mér sýnist augljóst að enn og aftur eigi að fara að gambla með lífeyrissjóðina og setja til hliðar það aðalhlutverk, og reyndar eina hlutverk þeirra samkvæmt lögum, sem er að ávaxta peninga okkar lífeyrissjóðseigenda á sem tryggastan hátt.
Í sáttmálanum má finna eftirfarandi:
Í grein 4. Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu sáttmálanum stendur m.a. þetta (og hef ég strikað undir og feitletrað það sem mér þykir athyglisverðast): "Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16.06.2009 o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009."
Það skal með öðrum orðum hafa hraðan á og vera búið að komast í þessa peninga að tveimur mánuðum liðnum.
Í grein 9. Málefni lífeyrissjóða stendur hins vegar: "Að óbreyttu hvílir sú lagaskylda á sjóðunum að endurskoða fjármögnun þeirra og/eða skerða réttindi sjóðsfélaga. Aðilar eru sammála um að gera ráðstafanir til að unnt sé að fresta slíkum ákvörðunum að sinni á meðan unnið er að heildarendurskoðun."
Þetta verður varla skilið öðru vísi en að menn séu meðvitaðir um lagaskyldu sjóðanna en séu allir af vilja gerðir að trufla það og tefja að þeir sinni henni. Og hvenær lagaskylda er lagaskylda og hvenær hún "hvílir að óbreyttu" þætti mér fróðlegt að vita og hver munurinn er á lagaskyldu og "lagaskyldu að óbreyttu". Þetta þykir mér vægast sagt heldur skuggaleg áform.
Þetta hafði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða að segja í ávarpi á aðalfundi Landssamtakana nú í vor:
"Stjórnvöld óskuðu eftir aðkomu lífeyrissjóðanna við upphaf bankakreppunnar og fóru fram fundir forystusveitar lífeyrissjóðanna með nokkrum ráðherrum í Ráðherrabústaðnum föstudaginn 3. október og laugardaginn 4. október sl. Erindi stjórnvalda var að óska eftir því að sjóðirnir flyttu heim um 50% af erlendum eignum sínum að verðmæti á þáverandi gengi um 250 milljarðar króna. Boðað var til mjög fjölmenns fundar á vegum LL fyrr á laugardeginum áður en haldið var á fund ríkisstjórnar nýjan leik. Sjóðirnir tóku vel í þessa málaleitan stjórnvalda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í ályktun. Ekki reyndi þó á þennan velvilja lífeyrissjóðanna þegar í ljós kom að morgni mánudagsins 6. október sl. að vandi fjármálafyrirtækjanna var mun meiri en reiknað hafði verið með."
Arnar og kó voru semsagt tilbúnir í -og virðist þykja leitt að hafa ekki fengið að framkvæma þennan "velvilja"- að taka heim 250 milljarða og henda þeim í bankasukkið rétt áður en allt hrundi og gengi krónunar féll með 50% sem hefði þýtt að 125 milljarðar af þessum peningum hefðu horfið á einu bretti. Og þessir sömu menn sitja enn við stjórnvölinn í lífeyrissjóðunum og virðast ekki sjá neitt athugavert við þetta heldur á að grípa það tækifæri sem gefst núna til að henda lífeyrissjóðnum okkar í atvinnubótavinnu í hagkerfi sem er hrunið og með ónýtan gjaldmiðil, sem eingöngu er hlegið að erlendis og fæst ekki einu sinni skipt.
Þetta háttalag minnir mig á sögu af bónda einum við Breiðafjörð sem varð fyrir því óláni að allar hans kindur flæddu á skeri nema sú vænsta, mórauða. En var kall þá orðinn svo reiður að hann tók hana og grýtti henni í sjóinn með þeim orðum að "hún væri best geymd hjá andskotanum líka"!
Til hamingju með sáttmálann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Jón Bragi Sigurðsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.